• Vetrarbrautir á endurjónunarskeiði snemma í sögu alheims
    Vetrarbrautir á endurjónunarskeiði snemma í sögu alheims. Mynd: M. Alvarez, R. Khaeler og T. Abel

Endurjónun

(e. reionization)

Endurjónun (e. reionization) er það skeið í sögu alheims þegar vetnisgasið í alheiminum, sem myndaðist við Miklahvell, breyttist úr því að vera óhlaðið yfir í að vera jónað (rafgas). Endurjónunarskeiðið er talið hefjast um 150 milljón árum eftir Miklahvell eða þegar myrku öldunum, sem svo eru nefndar, lauk. Endurjónunarskeiðið markaði þáttaskil í sögu alheimsins. Þá mynduðust fyrstu stjörnurnar og vetrarbrautirnar. Geislun frá þeim endurjónaði vetnisgasið og hefur gasið í alheiminum að mestu leyti verið jónað upp frá því.

Um það bil 400.000 árum eftir Miklahvell (rauðvik z = 1.100) varð fyrsta breytingin á vetni í alheiminum. Þetta er svonefnd skilnaðarstund og markar það skeið í sögu alheims þegar efnisskeiðið tók við af geislunarskeiðinu. Þá hafði gasið í alheiminum kólnað nóg til þess að rafeindir og róteindir gætu bundist og myndað óhlaðin vetnisatóm.