Ritchey-Chrétien sjónaukar

Ritchey-Chrétien sjónaukar eru sérhæfðir Cassegrain sjónaukar sem hannaðir eru til að eyða hjúpskekkju (e. coma) og gefa vítt og vel leiðrétt sjónsvið. Í Ritchey-Chrétien sjónaukum eru báðir speglarnir, safnspegillinn og aukaspegillinn, breiðbogalaga (e. hyperbolic). Þessi hönnun var fundin upp snemma á 20. öld af bandaríska stjörnufræðingnum George Willis Ritchey (1864-1945) og franska stjörnufræðingnum Henri Chrétien (1879-1956). Ritchey smíðaði fyrsta vel heppnaða sjónaukann af þessari tegund árið 1927, en safnspegill hans var 24 tommur (60 cm).

Spegilhönnun Ritchey-Chrétien veldur því að hvorki myndast hjúpskekkja né kúluvilla sem venjulega plagar klassíska Cassegrain sjónauka. Til þess að draga úr þessum skekkjum eru klassískir Cassegrain venjulega fremur hægir eða í kringum f/12. Þessar skekkjur hafa áhrif á myndgæðin en í Ritchey-Chrétien er búið að leiðrétta fyrir þeim. Auk þess er engin litskekkja eins og getur verið í linsusjónaukum. Af þessari ástæðu eru allir stærstu stjörnusjónaukar heims af Ritchey-Chrétien gerð. Báðir Keck-sjónaukarnir á Hawaii og VLT-sjónaukarnir í Chile eru af Ritchey-Chrétien gerð, sem og sjálfur Hubblessjónaukinn.

Helsti ókostur Ritchey-Chrétien sjónauka er kostnaðurinn við smíði safnspegilsins. Þess vegna er þessi tegund fyrst og fremst í dýrustu stjörnusjónaukum heims.

Stjörnuáhugamenn

Ritchey-Chrétien sjónaukar njóta sívaxandi vinsælda meðal stjörnuáhugamanna eftir því sem kostnaður við þá hefur farið lækkandi. Í dag nota margir færustu stjörnuljósmyndarar heims þessa tegund. Kaup á Ritchey-Chrétien sjónauka er ekki fyrir hvaða stjörnuáhugamann sem er því kostnaður við þá hleypur á hundruð þúsunda upp í nokkrar milljónir króna. Þá er sjónaukastæðið ekki talið með í þeirri upphæð.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Sjónaukar og rannsóknir í stjarnvísindum. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/alheimurinn/rannsoknir/ritchey-chretien-sjonaukar (sótt: DAGSETNING).