Dagbók stjörnufræðikennara – Kennsluvika 5 – haust 2013
Hér að neðan er óformleg lýsing á kennsluviku í stjörnufræði við Menntaskólann í Reykjavík haustið 2013. Öllum er frjálst að nota og breyta efni sem hér birtist. Mikið af þessu efni ætti að geta nýst við kennslu á efsta stigi og miðstigi grunnskóla.
Um dagbókina
Hér er sagt frá einni kennsluviku í stjörnufræði við Menntaskólann í Reykjavík veturinn 2013-2014.
DVD myndin Horft til himins (Eyes on The Skies)
Ég hélt áfram að sýna DVD myndina Horft til himins (Eyes on The Skies) sem ég byrjaði á í kennsluviku 4.
Eftir að við kláruðum myndina þá sýndi ég þeim myndir af Evrópska risasjónaukanum (European Extremely Large Telescope) og Ferkílómetra útvarpssjónaukanum (Square Kilometer Array).
Loks sýndi ég þeim stuttan þátt úr ESOcast þáttaröðinni um myndatöku fyrir James Bond myndina Quantum of Solaris sem fór fram við hinn evrópska Very Large Telescope í Chile.
Örfyrirlestrar um stjörnumerkin
Nokkrir nemendur fluttu örfyrirlestra um stjörnumerki sem var sagt frá í umfjöllun um kennsluviku 3.