Sólkerfisrölt 7. bekkjar
Í tilefni af ári stjörnufræðinnar 2009 þá fór 7. bekkur B í Melaskóla í „sólkerfisrölt“ í miðbæ Reykjavíkur þar sem þau settu upp sólkerfið í réttum hlutföllum. Þau reiknuðu út hlutföllin á milli reikistjarnanna og fjarlægðanna á milli þeirra og völdu hluti sem gátu táknað reikistjörnurnar.
Þann 4. apríl 2009 setti 7. bekkur B í Melaskóla upp líkan af sólkerfinu okkar í miðbæ Reykjavíkur. Verkefnið var hluti af 100 stjörnufræðistundum sem var einn af meginviðburðum árs stjörnufræðinnar 2009. Á fjórða tug þátttakenda rölti frá sólinni á Ingólfstorgi og upp á Hlemm þar sem áttunda reikistjarnan, Neptúnus, var staðsett í 1,5 km fjarlægð.
Myndirnar tók Óskar Torfi Viggósson.
![]() |
Hér eru allir klárir í slaginn. Bekknum var skipt upp í hópa og átti hver hópur að finna til upplýsingar um sína reikistjörnu. Upplýsingarnar voru svo settar upp á blað og límdar á skilti. Auk þess átti hver hópur að finna hlut sem passaði við stærð reikistjörnunnar (saltkorn, títíprjónshaus, glerkúlu o.s.frv.).
Gulklæddi skoppuboltinn sem sést hægra megin á myndinni er líkan af sólinni en samkvæmt útreikningum bekkjarins ætti hún að vera tæplega hálfur metri á breidd miðað við að Neptúnus sé í 1,5 km fjarlægð. Tveir mælingameistarar sáu um að mæla vegalengdirnar á milli reikistjarnanna og notuðu m.a. snærið á myndinni sem skipt var niður í tuttugu eins metra löng bil.
![]() |
Hópurinn stoppaði við hverja reikistjörnu og Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélagsins, hélt örstuttan fyrirlestur. Hér erum við stödd hjá reikistjörnunni Venusi í 36 metra fjarlægð frá sólinni.
![]() |
Venusarhópurinn hélt uppi merki reikistjörnunnar og var með líkan af henni sem hægt var að nota til samanburðar við sólina og hinar reikistjörnunar.
Þessi mynd er tekin frá sólinni á Ingólfstorgi út Austurstræti í áttina að Lækjartorgi. Hópurinn er hjá jörðinni sem er á stærð við litla kúlu (0,4 cm) í 50 metra fjarlægð frá sólinni. Vegalengdin frá sólu til jarðar er skilgreind sem 1 stjarnfræðieining sem jafngildir 50 metrum í líkaninu okkar. Enn er löng ganga framundan upp á Hlemm þar sem Neptúnus lendir í 30 stjarnfræðieininga fjarlægð frá sólinni (1.500 m).
![]() |
Hér heldur Sævar á líkani af rauðu reikistjörnunni Mars sem er á stærð við salt- eða piparkorn.
![]() |
Stærsta reikistjarna sólkerfisins, Júpíter, lenti neðst í Bankastrætinu í um 250 metra fjarlægð frá sólinni.
![]() |
Sjöunda reikistjarnan, Úranus, var við Kjörgarð á Laugavegi í tæplega eins kílómetra fjarlægð frá sólinni.
![]() |
Kúlan í rauða boxinu táknar Úranus sem er um fjórum sinnum breiðari en jörðin.
![]() |
Áttunda reikistjarnan, Neptúnus, lenti við Hlemm í 1,5 km fjarlægð frá sólinni. Ljósið er um 4 klukkustundir á leiðinni frá sólinni að Neptúnusi en það tók okkur ekki nema eina og hálfa klukkustund að ganga alla þessa leið með tilheyrandi stoppum!
Í þessu líkani myndi dvergreikistjarnan Plútó lenda við Þjóðskjalasafnið á Laugaveginum í 2 km fjarlægð frá sólinni. Næsta sólkerfi, Alfa Kentár, sem er þrístirni væri aftur á tveir skoppuboltar og einn körfubolti í hafinu norður af Ástralíu í 13 þúsund kílómetra fjarlægð! Það segir sína sögu um hve smáar sólstjörnurnar eru í himingeiminum og hve litlar líkur eru á því að sólin lendi í árekstri við aðrar stjörnur í Vetrarbrautinni.