• sólin, sólstjarna, stjarna, sólin okkar
    Sólin okkar séð með SOHO geimfarinu.

Sólbendlar og sólstrókar

Sólbendlar (filaments) eru dökkleitir gasþræðir sem myndast í segullykkjum í lithvolfi sólar. Þegar við horfum ofan á þá virðast þeir dekkri en náliggjandi svæði vegna þess að gasið í þeim er svalara í samanburði við ljóshvolfið fyrir neðan. Þegar sólbendla ber í dökkann himinn við yfir rönd sólar, líta þeir út eins og risavaxnir glóandi strókar og kallast þá sólstrókar (prominence). Sólbendlar og sólstrókar innihalda venjulega um 100 milljarða tonna af efni. Hefðbundinn sólstrókur getur teygt sig mörg þúsund kílómetra út frá sólinni.

Sólbendlar og sólstrókar geta varað í nokkra daga eða vikur en byrja að falla saman þegar segulsviðið í nálægð við þá verður óstöðugt. Þetta getur til að mynda gerst af nýjar segulsviðslínur byrja að stinga sér í gegnum yfirborðið undir sólbendlinum. Í kjölfarið fylgja sprengingar, oft langt frá virku svæðunum, sem kallast Hyder-blossar og eru nefndir eftir Charles Hyder sem birti niðurstöður rannsókna sinna á þessum atburðum árið 1967.

Sólbendla og sólstróka er fremur auðvelt að greina með litlum vetnis-alfa sólarsjónaukum en sólstróka er hægt að greina við sólmyrkva. Með vetnis-alfa sólarsjónauka er oft hægt að sjá áberandi breytingar á sólbendlum og sólstrókum á nokkrum klukkustundum.

Heimildir

  1. Chromospheric Features. Solar Physics. NASA/Marshall Solar Physics.
  2. What are Solar Filaments and Prominences? SpaceWeather.com.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Sólbendlar og sólstrókar. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/solin/solbendlar-og-solstrokar (sótt: DAGSETNING).